Skoðun

Sigurður Pétursson: Dýrafjarðargöng aftur á áætlun

Samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfjarða skorar á samgöngunefnd Alþingis að setja aftur inn á Samgönguáætlun áranna 2009-2012 framlög til Dýrafjarðarganga, og staðfesta þannig fyrri vilja Alþingis og Vestfirðinga að göngin milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar verði sett á áætlun samhliða Norðfjarðargöngum sem næsta jarðgangaframkvæmd á Vestfjörðum."

Þannig hljóðar áskorun sem var samþykkt á fundi Samgöngunefndar Fjórðungssambandsins 26. apríl, eftir að samgönguráðherra lagði fram nýja samgönguáætlun til 2012, þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum fjármunum til að hefja framkvæmdir við Dýrafjarðargöng.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi Dýrafjarðarganga fyrir framtíð byggðar á Vestfjörðum. Dýrafjarðargöng eru forsenda allra áætlana um uppbyggingu atvinnulífs, þjónustu og opinberrar stjórnsýslu á Vestfjörðum, hvort heldur litið er til Sóknaráætlunar 20/20, Byggðaáætlunar, samvinnu eða sameiningar sveitarfélaga eða annarra opinberrar þjónustu. Fullyrða má að Dýrafjarðargöng eru forsenda fyrir þróun byggðar á Vestfjörðum. Dýrafjarðargöng og uppbygging vegar um Dynjandisheiði sameinar byggðir Ísafjarðarsýslu og Barðastrandarsýslu í eitt atvinnu- og stjórnsýslusvæði og er alger forsenda þess að opinberar áætlanir um uppbyggingu á Vestfjörðum nái fram að ganga. Á hinn bóginn er ljóst að frestun framkvæmda við Dýrafjarðargöng, þó ekki sé nema um nokkur ár, mun reynast samfélagi Vestfjarða dýr og um leið samfélaginu öllu.

Í áskorun Samgöngunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga til Alþingis er jafnframt minnt á þá staðreynd að miðað við samgönguáætlun og þær framkvæmdir sem nú eru í gangi á Norðausturlandi, má segja að innan tveggja ára verði allir þéttbýliskjarnar á landinu komnir með nútímasamgöngur milli héraða nema Vesturbyggð og Tálknafjörður, sem búa munu enn við hálfrar aldar vegakerfi, hvort heldur leiðin liggur í norður eða suður. Þetta er ástand sem Kristján L. Möller samgönguráðherra hefur sagt að stjórnvöld ættu að biðja íbúana afsökunar á. Nú reynir á efndirnar.

Framkvæmdir á veginum milli Flókalundar og Bjarkalundar og framlög til Dýrafjarðarganga eru forgangsmál í samgöngum á Vestfjörðum. Nú er að duga eða drepast. Við Vestfirðingar látum það ekki yfir okkur ganga að vera settir aftast í röðina einu sinni enn. Krafan er skýr: Dýrafjarðargöng aftur inn á áætlun!






Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×