Betur fór en á horfði þegar kona missti stjórn á bíl sínum á Biskupstungnabraut við Kerið í Grímsnesi í gærkvöldi. Hún var með tvo ketti í bílnum og leit í augnablik af veginum til þess að sinna þeim í búri sínu.
Við það missti hún stjórnina á bifreiðinni sem valt þrjár veltur. Bíllinn er stórskemmdur en konan slapp ómeidd úr flakinu. Kettirnir sluppu einnig og hurfu út í nóttina á hlaupum, sennilega dauðskelkaðir.
Að sögn lögreglu mun konan hafa fengið aðstoð ættingja til þess að leita að dýrunum en engar fregnir hafa borist af árangri þeirrar leitar.