Enski boltinn

Salan á Ronaldo bjargaði United frá 31,8 milljóna tapi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Rio Ferdinand.
Cristiano Ronaldo og Rio Ferdinand. Mynd/AFP
Manchester United getur þakkað risasölunni á Portúgalanum Cristiano Ronaldo fyrir að félagið skilaði 48,2 milljóna punda hagnaði á fyrri hluta síðasta árs. Hagnaður United var því upp á 9,7 milljarða íslenskra króna.

Hefði United ekki fengið 80 milljónir punda frá Real Madrid fyrir Ronaldo hefði tapið orðið enn meira en fyrir ári síðan þegar félagið tapaði 21,4 milljónum punda. Þegar peningarnir fyrir Ronaldo eru dregnir frá hefði tapið verið upp á 31,8 milljónir punda.

Velta Manchester United jókst talsvert milli ára en hún var 278,5 milljónir punda í staðinn fyrir 256,2 milljónir punda árið á undan.

Manchester United borgaði reyndar um 41,9 milljónir punda af 509 milljóna punda láni sem félagið skuldar og á því sést að stór hluti kaupverðsins fyrir Ronaldo var notað til að borga niður skuldir en ekki til að kaupa leikmenn í staðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×