Innlent

Nýbygging HR í Nauthólsvík tekin í notkun

Nýbygging Háskólans í Reykjavík í Nauthólsvík var formlega tekin í notkun í morgun. Um eitt þúsund nemendur gengu af því tilefni fylktu liði frá aðalbyggingu skólans við Ofanleiti að nýju skólabyggingunni.

Hin nýja skólabygging er 23 þúsund fermetrar að stærð en síðar á þessu ári verður 7 þúsund fermetra álma til viðbótar tekin í notkun.

Upphaflega var þó gert ráð fyrir að byggingin yrði 37 þúsund fermetrar en byggingu tveggja smærri álma var frestað um óákveðinn tíma vegna efnahagsástandsins.

Nemendur og kennarar skólans fögnuðu áfanganum með því að ganga fylktu liði frá aðalbyggingu skólans við Ofanleiti að nýbyggingunni í Nauthólsvík. Um þúsund manns tóku þátt í skrúðgöngunni. Kennsla hófst síðan samkvæmt stundarskrá klukkan ellefu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, flutti ávarp í tilefni dagsins en hún segir að skólinn muni jákvæð og góð áhrif út í borgarsamfélagið.

„Mestu skiptir að hér er mikið af góðu ungu fólk sem er að fara gera góða hluti. Það er frábært að fylgjast með þessum góða degi og mikilvægt fyrir Reykjavíkurborg að þessi skóli sé hér," segir Hanna Birna.

Ari Kristinn Jónsson, tekur við rektorsstöðu HR af Svöfu Grönfeldt í lok þessa mánaðar. Hann á ekki von á meiriháttar stefnubreytingum í starfi skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×