Innlent

Dregið úr heimildum sveitarfélaga til skuldsetningar

Dregið verður úr heimildum sveitarfélaga til skuldsetningar, samkvæmt samkomulagi ríkisstjórnarinnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þetta á að setja í lög fyrir áramót, en von er á frumvarpi frá fjármálaráðherra um fjármál sveitarfélaganna á haustþingi.

Skuldastaða sveitarfélaga hefur verið mikið áhyggjuefni á síðustu misserum.

Í október í fyrra var gefin út yfirlýsing um vegvísi að hagstjórnarsamningi sveitarfélaga. Frá því hefur samráðsnefnd um efnahagsmál sem í sitja fulltrúar fjármála- og samgönguráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga unnið að nýjum fjármálareglum fyrir sveitarfélög. Samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins er þetta meðal annars gert til að uppfylla viljayfirlýsingu stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í apríl síðastliðnum.

Í viljayfirlýsingunni segir að stefnt sé að því að koma breytingum á lögum um fjármál sveitarfélaga í lög fyrir lok þessa árs. Í þeim lögum eigi að vera takmarkanir á heimildum sveitarfélaga til skuldsetningar og ákvæði um refsingar ef þeim takmörkunum sé ekki fylgt.

Unnið er að fullmótuðu frumvarpi um fjármál sveitarfélaga sem lagt verður fram í október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×