Innlent

Íbúi Flateyjar kærði kosningarnar

Íbúi í Flatey kærði framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna í Reykhólahreppi, en framkvæmd þeirra var ekki kynnt sérstaklega fyrir eyjaskeggjum.
Íbúi í Flatey kærði framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna í Reykhólahreppi, en framkvæmd þeirra var ekki kynnt sérstaklega fyrir eyjaskeggjum.
Endurtaka þarf sveitarstjórnarkosningar í Reykhólahreppi þar sem nefnd, skipuð af sýslumanninum á Patreksfirði, hefur úrskurðað kosningarnar ógildar. Samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar lét kjörstjórn hjá líða að kynna komandi sveitarstjórnarkosningar og fyrirkomulag þeirra fyrir íbúum eyja á Breiðafirði. Íbúi í Flatey kærði framkvæmd kosninganna en þar eru sjö kjósendur með lögheimili. Í kosningunum greiddu 129 manns atkvæði, eða 62%, og athygli vakti að ekki kom neitt utankjörfundaratkvæði upp úr kössunum.

„Ég man ekki í fljótheitum eftir því að viðlíka hafi gerst áður, að minnsta kosti ekki af sams konar tilefni. Eftir því sem ég fæ best séð er þetta ein birtingarmyndin af því sem getur gerst þegar sveitarfélög eru sameinuð og afskekktur partur af sveitarfélaginu gleymist,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, stjórnmálafræðingur. „Þó eru til dæmi um atvik sem eru minni háttar en þessi, eins og þegar sveitarfélagið Árborg varð til og það gleymdist að kveikja á jólatrénu á Stokkseyri. Þetta segir manni að þegar svona sameiningar eru verður fólk í stjórnsýslu sveitarfélagsins að vanda sig þar sem eftir nægu er að muna.“ Fráfarandi hreppsnefnd mun starfa uns nýjar kosningar hafa farið fram. - jma



Fleiri fréttir

Sjá meira


×