Fótbolti

Bild: Mourinho vill fá einn þýskan landsliðsmann til viðbótar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho og Louis van Gaal, þjálfari Bayern.
Jose Mourinho og Louis van Gaal, þjálfari Bayern. Mynd/AFP
Jose Mourinho er víst ekki hættur að kaupa þýska landsliðsmenn til Real Madrid. Þýska blaðið Bild heldur því fram að hann ætli að reyna að kaupa Bastian Schweinsteiger frá Bayern Munchen eftir að hafa þegar krækt í þá Sami Khedira og Mesut Ozil.

Samkvæmt heimildum Bild-blaðsins þá átti Jose Mourinho að hafa talað við Bastian Schweinsteiger eftir leik Real Madrid og Bayern í Beckenbauer-bikarnum 13. ágúst síðastliðinn. Samkvæmt heimildum Bild sagði Mourinho þetta við "Schweini": „Ég vildi fá þig á síðasta ári en það varð ekkert af því. Á næsta ári tilheyrir þú mér."

Schweinsteiger er 26 ára gamall og hefur spilað lykilhlutverk á miðju Bayern Munchen og þýska landsliðsins. Hann var einn af bestu leikmönnum HM í Suður-Afríku þar sem Þjóðverjar léku frábæran fótbolta og unnu að lokum bronsið.

Samningur Schweinsteiger er til ársins 2012 og skrifi hann ekki undir nýjan samning þá verður næsta sumar síðasta tækifæri Bayern til að fá eitthvað fyrir hann. Schweinsteiger sjálfur hefur ekki viljað lýsa því yfir opinberlega að hann muni klára ferillinn hjá Bayern.

Real Madrid borgaði Werder Bremen 18 milljónir evra fyrir Ozil og Stuttgart frékk 14 milljónir evra fyrir Sami Khedira. Þeir gætu hinsvegar þurft að borga meira en 30 milljónir evra fyrir Schweinsteiger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×