Innlent

Segir löggjöf um spilavíti „forkastanlega hugsun“

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, er ekki hrifinn af áformum um rekstur spilavítis á Nordica.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, er ekki hrifinn af áformum um rekstur spilavítis á Nordica.

Setja þarf sérstaka löggjöf um rekstur spilavíta ef áform Icelandair og Arnars og Bjarka Gunnlaugssona eiga að verða að veruleika. Stjórnarþingmaður segir landið hafa verið eitt stórt spilavíti og segist aldrei ætla að styðja slíka löggjöf.

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að setja þurfi sérstaka löggjöf um rekstur spilavíta áður en hægt er að setja upp slíka sali hér á landi. Iðnaðarráðuneytið hefur nú óskað eftir umsögn frá lögreglunni um hvort það sé rétt sem haldið er fram, að það að leyfa starfsemina hefði þau áhrif að fækka ólöglegum spilavítum í undirheimaklúbbum.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, segist aðeins vera tilbúinn að styðja löggjöf um spilavíti ef hún er til þess fallin að þrengja að starfsemi spilavíta, ekki liðka fyrir henni.  „Við erum í rauninni með spilavíti. Háskóli Íslands rekur spilavíti, og Rauði Krossinn, SÁÁ og Landsbjörg. Það eru spilavíti, spilakassarnir. Ef að menn ætla í alvöru að opna á einhverja stærri lúxussali með stórum spilavítum til að græða á útlenskum spilafíknum þá finnst mér það forkastanleg hugsun. Og ég myndi aldrei styðja slíkt," segir Ögmundur.

 

Þótt hann geti ekki talað fyrir aðra þingmenn segist Ögmundur ekki hafa trú á því að þingmeirihluti sé fyrir því á Alþingi að styðja frumvarp um rekstur spilavíta. „Ég spyr nú, eru menn ekki búnir að fá nóg af spilavítishugsun á Íslandi. Landið var gert að einu allsherjar spilavíti og þjóðfélagið gert að panti í spilamennsku. Er ekki komið nóg af þessu. Ég held það," segir Ögmundur Jónasson.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×