Innlent

Lögreglan rannsakar Herra Hafnarfjörð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Boðið var upp á bjór í Herra Hafnarfirði.
Boðið var upp á bjór í Herra Hafnarfirði.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú hvort herrafataverslunin Herra Hafnarfjörður hafi gerst brotleg við lög með því að bjóða viðskiptavinum ókeypis áfengi með hverjum seldum jakkafötum.

Í tilkynningu sem Herra Hafnarfjörður sendi frá sér um hálffjögur leytið í dag segir að móttökur hafi vægast sagt verið ótrúlegar en strax klukkan tíu í morgun hafi fólk verið mætt til að ná sér í áramótajakkaföt með bjórkassa eða 3 léttvínsflöskum í kaupbæti.

„Það er mikil gleði í fólkinu sem kemur og ánægjan með að klára áramótapartíið í heilu lagi í Herrafataverslun mælist mjög vel fyrir. Hér kom t.d. hópur stráka í morgun sem allir voru á leið í sama partýið, dressuðu sig upp og fylltu bílinn af léttvíni og bjór í leiðinni. Svo vitnuðu þeir í Blaz Rocca, "allir eru að fá sér....jakkaföt," segir í tilkynningunni.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að málið sé í skoðun hjá embættinu. Hann eigi von á því að menn bregðist við þessu með einhverjum hætti. „Það var eitthvað búið að kvarta undir þessu sem áfengisauglýsingu, en þetta er náttúrlega ekki bara áfengisauglýsing heldur einnig hugsanlegt brot á reglum um sölu og dreifingu áfengis," segir Stefán Eiríksson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×