Innlent

Ástþór Magnússon boðaður í yfirheyrslu hjá lögreglu

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Ástþór hræðist ekki lögregluna. Hann ætlar ekki að mæta í yfirheyrslu eftir hádegi.
Ástþór hræðist ekki lögregluna. Hann ætlar ekki að mæta í yfirheyrslu eftir hádegi.
„Ef lögreglan vill handtaka mig þá er það ekkert mál. Ég er ekkert að fela mig. Ég lét lögregluna vita að ég yrði á Íslandi yfir jólin," segir Ástþór Magnússon. Hann kveðst hafa verið boðaður í yfirheyrslu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu klukkan eitt í dag.

„Hreinn Loftsson er búinn að kæra mig út af því að hann heldur að ég haldi úti vefsíðunni sorprit.com og að þar sé óþægileg ádeila á útrásarvíkinga," segir Ástþór. Aðspurður segist hann ekki ætla gefa upp hvort hann standi á bak við umrædda síðu. „Ég veit ekkert um það. Ég er ekkert að tjá mig um það heldur vinnubrögð lögreglunnar."

Ástþór segist ekki geta tekið lögreglu sem gengur erinda glæpamanna alvarlega. „Er það eðlilegt að bankaræningjar og skósveinar þeirra gangi lausir á meðan þeir sem gagnrýna eru ofsóttar af lögreglunni? Ég ætla ekki að mæta í yfirheyrslu á meðan lögreglan vinnur svona."

Ástþór bendir að hann hafi ítrekað lagt fram kærur undanfarin ár sem lögreglan hafi ekkert gert með. „Ég er búinn að kæra DV 12 til 15 sinnum alveg frá því að Jónas Kristjánsson var ritstjóri. Þeir eru alltaf að skrifa eitthvað rugl um mig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×