Innlent

Laugardalslaug opin allan sólarhringinn

Borgaryfirvöld hafa ákveðið að efna til sundvöku í Laugardalslauginni dagana 21.-26. júlí næstkomandi.  Á sundvökunni verður Laugardalslaugin opin í  fimm nætur frá og með miðvikudeginum 21. júlí frá klukkan 6.30 til mánudagsins 26. júlí til klukkan 22.30.

Á samráðsvettvanginum Betri Reykjavik kom fram sú hugmynd að hafa sólarhringsopnun í einni sundlaug í Reykjavík. Mikill stuðningur var við tillöguna og því ákváðu borgaryfirvöld að gera tilraun með sundvöku í Laugardalslaug í eina viku, segir í fréttatilkynningu.

Gjald fyrir sundgesti á sundvöku er þúsund krónur en þess ber að geta að afsláttar- og árskort gilda.

Börn yngri en 16 ára fá ekki aðgang á nóttunni nema í fylgd með fullorðnum og er það í samræmi við útivistarreglur barna í borginni.

Borgaryfirvöld vonast til að sundlaugargestir noti þetta einstaka tækifæri sem nú gefst til þess að fara í sund á björtum sumarnóttum. Svo gæti farið, ef vel tekst til, að sundvakan yrði að árlegum viðburði. Rétt er að taka fram að öll meðferð áfengis er að venju stranglega bönnuð í lauginni, segir í tilkynningunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×