Erlent

Sólbrunnir hvalir á Kaliforníuflóa

Óli Tynes skrifar
Úff, á einhver Aftersun?
Úff, á einhver Aftersun?

Vísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að hvalir sólbrenni og að það sé vaxandi vandamál. Vísindamenn frá Bretlandi og Mexíkó fylgdust með og gerðu rannsóknir á 156 hvölum á Kaliforníuflóa. Það voru búrhvalir, steypireyðar og langreyðar. Lengi hefur verið vitað um blöðrur á bökum hvala. Með hágæða ljósmyndum og sýnishornum hafa vísindamennirnir komist að þeirri niðurstöðu að þær stafi af sólbruna.

Hvalir komast mismunandi vel frá sólinni. Steypireyður hefur ljósari húð en flestir aðrir hvalir og brenna því frekar en til dæmis langreyður. Vísindamennirnir hafa enga hugmynd um hvort sólbruninn angrar hvalina á sama hátt og mannskepnuna. Eða hvort hann leiðir til hærri tíðni krabbameins.

Þeir telja sig sjá talsverða aukningu í sólbruna hvala og velta fyrir sér hvort gat í ósonlaginu geti átt þar hlut að máli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×