Erlent

Tugir húsa í björtu báli

Óli Tynes skrifar

Tugir húsa stóðu í morgun í björtu báli beggja vegna landamæra Kóreuríkjanna, eftir mikinn stórskotaliðsbardaga. Bæði löndin hafa sett herafla sinn í viðbragðsstöðu.

Bardaginn hófst í birtingu í morgun þegar Norður-Kórea hóf fyrirvaralaust mikla fallbyssuskothríð á eyna Yeonpyeong sem er skammt undan ströndinni og rétt við landamæri ríkjanna. Íbúar á eynni eru um 1600, flestir í suður-kóreskri herstöð sem þar er. Íbúarnir voru í skyndi fluttir í loftvarnabyrgi og skothríðinni var svarað. Eftir um klukkustundar bardaga hættu norðanmenn skothríðinni skyndilega og sunnanmenn fljótlega þar á eftir.

Tölur eru enn óljósar en einhverjir tugir munu hafa fallið og særst á eynni. Ekkert er vitað um manntjón norðan landamæranna. Tilefni árásarinnar er ekki augljós, en það er nú gjarnan svo þegar Norður-Kórea á í hlut. Spenna hefur verið óvenjumikil á milli landanna síðan norðanmenn sökktu suður-kóresku herskipi fyrr á þessu ári. Menn virðast nokkuð sammála um að þetta sé alvarlegasta vopnahlésbrot síðan Kóreustríðinu lauk árið 1953 en um framhaldið er ómögulegt að segja á þessari stundu.

Það getur auðvitað allt farið í bál og brand en það er ekki síður líklegt að ekkert meira verði úr þessu. Ef allt fer á versta veg verður Norður-Kóreu ekki auðveldur leikurinn. Landið hefur að vísu gríðarlega stóran her, en tæknilega séð er hann eins og frá síðari heimsstyrjöldinni. Suður-Kórea ræður hinsvegar yfir hátækni herafla auk þess sem þar eru um 25 þúsund bandarískir hermenn gráir fyrir járnum.

Þar kemur svo á móti sem menn hafa mestar áhyggjur af, Norður-Kórea á býsnin öll af ágætlega virkum eldflaugum og væntanlega einhverjum kjarnorkusprengjum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×