Innlent

Fjölskylda frá Haítí sameinaðist á Íslandi í gær

Ótrúlegar hörmungar riðu yfir Haítí fyrr á árinu. Myndin er úr safni.
Ótrúlegar hörmungar riðu yfir Haítí fyrr á árinu. Myndin er úr safni.

Þrír einstaklingar frá Haítí komu í gær til Íslands til búsetu, tímabundið eða til frambúðar samkvæmt tilkynningu frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu.

Um er að ræða fjölskyldusameiningu vegna hamfaranna í Haítí í janúar síðastliðnum. Þetta eru tvö börn (sonur, 11 ára, og fósturdóttir, 13 ára) haítískrar konu sem býr hér og móðir hennar (51 árs), amma barnanna.

Vísir greindi frá því fyrr á árinu að aðstandendur hér á landi hefðu óskað eftir því að fá ættmenni sín til landsins eftir jarðskjálftann sem varð þar í landi fyrr á árinu.

Tekið er á móti hópnum á grundvelli sérstakra viðmiðunarreglna sem voru mótaðar að frumkvæði ríkisstjórnarinnar í kjölfar jarðskjálftans á Haítí. Samkvæmt þeim gátu Haítíbúar búsettir hérlendis sótt um fjölskyldusameiningu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Reglurnar miðast við fjölskyldusameiningu með tilliti til mannúðarsjónarmiða og er í þeim miðað við ákvæði laganna um tiltekin fjölskyldutengsl.

Fólkinu er veitt aðstoð við að komast til Íslands. Félagsleg þjónusta af hálfu viðkomandi sveitarfélags er veitt á kostnað ríkisins í ákveðinn tíma, auk íslenskukennslu og eftir atvikum annarri aðstoð sem gert er ráð fyrir í samningi ríkisins og Rauða kross Íslands.

Verkefnisstjóri frá Velferðasviði Reykjavíkurborgar hefur veitt aðstoð við undirbúning fjölskyldusameiningar samkvæmt reglunum.

Hópurinn flaug til Parísar í fyrradag frá Port-au-Prince í Haítí, og þaðan til Íslands í gær. Fjölskyldan verður búsett í Kópavogi og nýtur þar aðstoðar félagsþjónustunnar sveitarfélagsins. Nú tekur við aðlögunarskeið, en fyrstu dagarnir fara í hvíld eftir langt ferðalag. Von bráðar hefja börnin skólagöngu í Álfhólsskóla í Kópavogi.

Flóttamannanefnd annast móttöku hópsins fyrir hönd félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Auk fulltrúa þess ráðuneytis eru þar fulltrúar frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og Rauða krossi Íslands.

Formaður flóttamannanefndar er Mörður Árnason og starfsmaður hennar Linda Rós Alfreðsdóttir, sérfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneyti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×