Ríkissaksóknari tilkynnti aðilum máls Alberts í dag að ákveðið hefði verið að áfrýja því til Landsréttar. Albert var fyrir þremur vikum sýknaður af ákæru um nauðgun, helst á þeim grundvelli að framburður hans var metinn trúverðugri en framburður konunnar sem kærði hann.
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, verjandi Alberts, segir í samtali við Vísi að áfrýjunin hafi komið honum á óvart, enda hafi dómur Héraðsdóms Reykjavíkur verið mjög vel rökstuddur og niðurstaðan lögfræðilega rétt.
Í svari við fyrirspurn Vísis segir Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari að ákvörðun um áfrýjun hafi verið tekin af sömu ástæðu og aðrar ákvarðanir um áfrýjun.
„Ákvörðun um áfrýjun í þessu máli, líkt og í öðrum sýknumálum sem er áfrýjað, byggist á því mati ríkissaksóknara að ákærði hafi ranglega verið sýknaður og að verulegar líkur séu á að sýknu verði snúið í sakfellingu fyrir Landsrétti.“