Innlent

Ráðherra skammar eigin ríkisstjórn

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason.
Einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, Jón Bjarnason, gagnrýnir eigið fjárlagafrumvarp í grein í Fréttablaðinu um helgina, og segir að niðurskurðartillögur frumvarpsins auki á misrétti landshluta og skerði búsetuskilyrði í litlum samfélögum.

Þótt fjármálaráðherra sé sá ráðherra sem mæli fyrir fjárlagafrumvarpinu er það skilgreint sem stjórnarfrumvarp og flutt með samþykki og í nafni allrar ríkisstjórnarinnar. Því vekur framtak sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrans, Jóns Bjarnasonar, athygli um helgina en hann tók upp á því í grein í Fréttablaðinu að gagnrýna þann þátt frumvarpsins sem snýr að niðurskurði heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

Jón segist að undanförnu hafa farið um kjördæmin og fengið heilbrigðisumræðuna beint í æð á heimavelli og því viti hann hvað sé í húfi fyrir fólkið og byggðirnar í landinu. Í litlum samfélögum séu tugir starfa í hættu og lakari þjónusta muni auka á misrétti landshluta og skerða búsetuskilyrði. "Við því megum við síst nú um stundir", segir Jón Bjarnason.

Þessi gagnrýni ráðherrans á frumvarp ríkisstjórnarinnar er ekki síður athyglisverð í ljósi þess að hans eigin flokkssystkin voru í lykilhlutverki við tillögusmíðina, Álfheiður Ingadóttir sem þáverandi heilbrigðisráðherra og flokksformaðurinn Steingrímur J. Sigfússon sem fjármálaráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×