Innlent

Sáttmáli skrifaður fyrir Íslendinga

Fundargestir lögðu áherslu á að stjórnarskráin væri sáttmáli sem tryggja ætti fullveldi og sjálfstæði Íslendinga og hún væri skrifuð fyrir fólkið í landinu. fréttablaðið/pjetur
Fundargestir lögðu áherslu á að stjórnarskráin væri sáttmáli sem tryggja ætti fullveldi og sjálfstæði Íslendinga og hún væri skrifuð fyrir fólkið í landinu. fréttablaðið/pjetur
Jafnrétti, lýðræði, mannréttindi, heiðarleiki og réttlæti eru á meðal þeirra helstu gilda sem fundargestir vilja að lögð verði til grundvallar í nýrri stjórnarskrá. Helstu niðurstöður Þjóðfundar um stjórnarskrá sem haldinn var á laugardag voru kynntar á blaðamannafundi í gær. Fundargestir voru um 950 talsins af landinu öllu.

Á fundinum voru gildin flokkuð í átta meginflokka sem innihald stjórnarskrárinnar var rætt út frá. Fundargestir lögðu áherslu á að stjórnarskráin væri sáttmáli sem tryggja ætti fullveldi og sjálfstæði Íslendinga og hún væri skrifuð fyrir fólkið í landinu.

Þátttakendur greiddu atkvæði um þá þætti sem þeim fannst mestu skipta og hins vegar um þá þætti sem þeim fannst fela í sér nýjungar. Samin var setning á hverju borði um það sem mestu hafði skipt í umræðunni. Þá gafst fundargestum tækifæri til að koma persónulegum tilmælum á framfæri við stjórnlagaþing, Alþingi, fjölmiðla og aðra. Helstu ábendingarnar snerust um að stjórnlagaþing ætti að virða niðurstöður Þjóðfundar, vinnubrögð þess ættu að vera gagnsæ og að stjórnlagaþingmenn ættu að hafa það að leiðarljósi að stjórnarskráin væri skiljanleg og á mannamáli.

Úrvinnsla hófst þegar að fundi loknum og niðurstöður liggja að mestu fyrir. Einungis átti eftir að klára að vinna úr persónulegum tilmælum fundargesta. Niðurstöðurnar munu liggja fyrir seinna í vikunni.

Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnlaganefndar, sagði þjóðfundinn vel heppnaðan og að góður andi hefði myndast meðal fundargesta. Hún benti á að fundurinn væri gleðiefni fyrir þjóðina í heild.

Njörður P. Njarðvík, meðlimur í stjórnlaganefnd, sagði að niðurstöður þjóðfundarins gætu orðið grundvöllur fyrir nýjan þjóðarsáttmála. „Það komu fram afskaplega skýrar ábendingar um mannréttindi, réttlæti og jöfnuð,“ segir Njörður.

Meðlimir í stjórnlaganefnd voru sammála um það að þjóðfundurinn hefði verið vel heppnaður og gæti orðið fastur liður í umræðu um mikilvæg málefni í framtíðinni. Fram kom að erlendir fjölmiðlar og fræðimenn hefðu komið til landsins til að fylgjast með framkvæmd fundarins.

martaf@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×