Fótbolti

Adidas reynir að verja versta bolta í sögu HM

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Boltinn umdeildi.
Boltinn umdeildi. AFP
Jabulani boltinn sem notaður er á HM þykir umdeildur mjög. Adidas, sem framleiðir boltann, kemur honum til varnar og segir að menn þurfi bara að venjast honum.

Þá kemur eðlilega upp sú spurning hvort rétt sé að nota spánnýjan bolta sem þarf að venjast á jafn stóru móti og HM.

"Þetta er skelfilegur bolti," sagði Ítalínn Giampaulo Pazzini, Julio Cesar markmaður Brasilíu kallaði hann "ömurlegan og ódýran bolta sem maður kaupir í kjörbúð."

Þá sagði Iker Casillas að hann væri "eins og strandbolti," og Marcus Hahnemann kallaði hann versta bolta sem hann hefur spilað með.

"Boltinn er skelfilegur. Þú heyrir það núna, næstu viku og næsta mánuðinn," sagði Tim Howard og Steven Gerrard ýjaði að því að mistök Robert Green væru að hluta til vegna boltans.

Dr. Andy Harland hannaði boltann. "Það er bara alls ekkert að boltanum. Við rannsökuðum hann í þaula. Ég hef heyrt kvartanirnar en það er bara vegna þess að leikmenn eru ekki vanir boltanum," sagði Harland.

Hann segir jafnframt að hann hafi boðið enska liðinu að tala við það um boltann en það hafi ekki þegið boðið.

Sumir vöndust boltanum betur en aðrir. Þjóðverjar notuðu boltann í þýsku úrvsdeildinni frá 1. janúar þar sem deildin er ekki með neinn samning um ákveðna bolta líkt og margar aðrar deildir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×