Fótbolti

Robben fær meiri tíma

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robben heldur um lærið eftir að hann meiddist.
Robben heldur um lærið eftir að hann meiddist. Nordic Photos / AFP

Arjen Robben verður áfram í leikmannahópi Hollands fyrir HM og mun í dag fljúga til Suður-Afríku þar sem mótið byrjar á föstudaginn.

Robben tognaði á vöðva aftan í læri í æfingaleik gegn Ungverjalandi á laugardaginn. Hann hafði skorað tvö mörk í leiknum en hann meiddist þegar hann reyndi að framkvæma hælsendingu undir lok leiksins.

Í fyrstu var óttast að meiðslin yrðu til þess að hann myndi missa af HM en þau reyndust ekki svo alvarleg. Bert van Marwijk, landslisþjálfari Hollands, vonast til þess að Robben geti eitthvað spilað með á mótinu.

„Ég mun ekki skipta Arjen út eins og málin standa nú," sagði Van Marwijk við blaðamenn í Suður-Afríku.

Þó er talið afar ólíklegt að Robben geti spilað með Hollandi gegn Danmörku í fyrsta leik liðanna í E-riðli. Það þykir einnig hæpið að hann nái hinum leikjum Hollands í riðlinum - gegn Japan og Kamerún.

En ef Holland kemst áfram í 16-liða úrslit gæti Robben komið við sögu þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×