Fótbolti

Lilleström skoraði þrjú í uppbótartíma og jafnaði - myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik með Lilleström.
Úr leik með Lilleström. Nordic Photos / AFP

Lilleström átti ótrúlegan lokasprett í leik liðsins gegn Molde í norsku úrvalsdeildinni í gær. Staðan var 3-0 þegar venjulegur leiktími rann út en leikmenn Lilleström skoruðu þrívegis í uppbótartímanum og náðu jafntefli.

Þeir Frode Kippe, Tarik Elyounoussi og Anthony Ujah skoruðu mörk Lilleström í blálok leiksins en samantekt úr leiknum má sjá hér.

Stefán Logi Magnússon lék allan leikinn í marki Lilleström og Björn Bergmann Sigurðarson fyrstu 62 mínúturnar.

Þá skoraði Birkir Már Sævarsson fyrra mark Brann í 2-1 sigri á Álasundi. Gylfi Einarsson kom inn á sem varamaður á 35. mínútu en Ólafur Örn Bjarnason, nýráðinn þjálfari Grindavíkur, sat allan leikinn á bekknum.

Veigar Páll Gunnarsson og Bjarni Ólafur Eiríksson léku allan leikinn þegar að Stabæk gerði 1-1 jafntefli við Sandefjord á útivelli. Pálmi Rafn Pálmason var á bekknum hjá Stabæk.

Þá vann Odd Grenland 1-0 sigur á Hönefoss. Árni Gautur Arason stóð í marki fyrrnefnda liðsins og Kristján Örn Sigurðsson lék allan leikinn í vörn Hönefoss.

Rosenborg og Tromsö eru á toppi deildarinnar með 30 stig eftir fjórtán umferðir. Lilleström er í fjórða sætinu með 23 stig, Odd Grenland í því sjötta með 21 stig og Stabæk er í sjöunda með 20 stig. Brann er í þrettánda sætinu með þrettán stig og Hönefoss í því fimmtánda með ellefu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×