Íslenski boltinn

Willum Þór: Við tókum ekki þátt í þessum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur.
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur. Mynd/Stefán
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur, var myrkur í máli eftir 4-0 tap liðsins á móti Stjörnunni í Garðabænum í kvöld.

„Allir sem voru hér sáu það að við mættum ekki til leiks. Þeir keyrðu bara yfir okkur nánast frá byrjun. Tryggvi keyrði inn í markvörðinn okkar, svo taka þeir eina duglega tæklingu til viðbótar og við gugnuðum og gáfum eftir. Þeir áttu greiða leið í gegnum miðjuna okkar og komu á flata vörnina og sprengdu okkur bara í fyrri hálfleik," sagði Willum.

„Við vorum ekki með lungann úr leiknum. Fyrri hálfleikurinn fór með leikinn. Þetta var ögn skárra í seinni enn ekkert til að hrópa húrra fyrir heldur. Þetta er bara einn leikur og við tókum ekki þátt í honum," sagði Willum.

Keflavíkurvörnin réð ekkert við Steinþór Frey Þorsteinsson í þessum leik og hann skapaði hættu í nánast hverri sókn, annaðhvort með því að keyra á vörnina enda henda innköstunum inn að markteignum.

„Við vissum að Steinþór myndi sækja boltann, setja undir sig hausinn og leggja af stað. Við ætluðum að beina honum í þverhlaupin en það tókst ekki. Svo bara dettur hann alltaf þegar kemur maður nálægt og Kiddi flautaði í öll skiptin," sagði Willum

„Liðið verst í heild sinni, við unnum boltann illa á miðsvæðinu og héldum honum ekki frammi. Þeir áttu greiða leið í gegnum miðjuna, keyrðu á flata vörnina og þá var pláss á bak við sem þeir stungu sér í gegnum. Við vorum bara í vandræðum allan fyrri hálfleikinn en tókst þó aðeins að lagfæra þetta í seinni," sagði Willum að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×