Íslenski boltinn

Heimir Guðjóns: Öskraði það sem allir sáu

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Fréttablaðið/Vilhelm
„Þetta var auðvitað víti og það sáu allir á vellinum. Ég öskraði á dómarann það sem allir sáu og við það fékk ég að líta rauða spjaldið," sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH eftir 2-2 jafntefli sinna manna gegn Fylki í kvöld en hann fékk að líta rauða spjaldið fyrir að mótmæla þegar ekki var dæmt vítaspyrna undir lok leiksins.

„Tímarnir eru breyttir í knattspyrnunni, það má voða lítið lengur og helst ekki sýna tilfinningar. Ég æsi mig afar sjaldan í leikjum og í fyrsta sinn sem ég fæ rauða spjaldið á bekknum. Einu sinni er allt fyrst."

FH-ingar byrjuðu leikinn afar illa og lentu tveimur mörkum undir. Heimir er ánægður með karakterinn í sínu liði. „Við byrjuðum illa og það þarf að byrja leiki betur á móti liði eins og Fylki. Við sýndum karakter með að koma tilbaka og erum svekktir með að vinna ekki leikinn," segir Heimir en liðsmenn hans fengu svo sannarlega færin í leiknum.

„Við óðum í færum í þessum leik og þetta var örugglega mjög skemmtilegur leikur fyrir áhorfendur. Við fengum nógu mörg góð færi til að klára þennan leik og auðvitað mjög svekkjandi að hirða ekki öll stigin."

Íslandsmeistararnir eru með átta stig eftir sex leiki og er það árangur sem ekki þykir vænlegur til lengdar. Heimir viðurkennir að það sé áhyggjuefni hversu fá stig séu að skila sér í hús.

„Það hefur verið góður stígandi í leik liðsins en auðvitað hef ég áhyggjur af því hvað það eru fá stig að skila sér í hús. Við fórum illa af stað í mótinu en verðum að halda áfram og byggja ofan á þessa frammistöðu. Deildin er mjög jöfn og erum ennþá inní baráttunni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×