Viðskipti erlent

Danir borga milljarða fyrir lélega fjárfestingaráðgjöf

Ný rannsókn á vegum danska fjármálaeftirlitsins sýnir að almenningur í Danmörku borgar allt að 1,3 miljarða danskra kr., eða tæplega 30 milljarða kr., á hverju ári fyrir lélega ráðgjöf um fjárfestingar í bönkum landsins.

Í frétt um málið á business.dk segir að rannsóknin leiddi í ljós að bankarnir ráðlögðu almenningi eingöngu að fjárfesta í sjóðum sem voru í viðskiptum hjá viðkomandi banka eða tengdir þeim á annan hátt. Þannig var þeim sem leituðu til Danske Bank ráðlagt að leggja fé sitt í sjóði á vegum Danske Invest og þeim sem leituðu til Nordea var ráðlagt að leggja fé sitt í sjóði á vegum Nordea Invest.

Í skýrslu fjármálaeftirlitsins segir að þótt á markaðinum séu fjöldi fjárfestingafélaga áttu allir bankarnir sem kannaðir voru það sameiginlegt að mæla aðeins með einum til þremur fjárfestingamöguleikum sem bankinn sjálfur bauð upp á.

Þetta þýðir að á hverju ári borgi Danir milljarða kr. fyrir ráðgjöf um fjárfestingar sem ekki endilega eru þær bestu sem völ er á.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×