Viðskipti erlent

Royal Greenland kaupir verksmiðju af Icelandic Seafood

Grænlenski útgerðar og fiskvinnslurisinn Royal Greenland (RG) hefur fest kaup á kavíarverksmiðjunni Westfalia-Strentz Gmbh í Cuxhaven af Icelandic Seafood. RG hefur séð verksmiðjunni fyrir grásleppuhrognum í fjölda ára en mun nú sjálft annast allan ferilinn frá veiðum til vinnslu og sölu kavíars að því er segir á vefsíðu RG.

Með í kaupum RG á Westfalia-Strentz fylgja allar eigur verksmiðjunnar ásamt húsnæði og vélabúnaði. Allir starfsmenn verksmiðjunnar halda vinnu sinni en verksmiðjan er staðsett við hafnarbakkann í Cuxhaven í Þýskalandi.

Flemming Kundsen forstjóri RG er mjög ánægður með kaupin að því er segir á vefsíðunni. Fyrir utan að ráða nú yfir öllu ferlinu í veiðum og vinnslu grásleppuhrogna segir Kundsen að tæknibúnaður verksmiðjunnar sé sá besti í heimi. Þar að auki fái þeir í sína þjónustu allt starfsfólk Westfalia-Strentz sem búi yfir mikilli þekkingu og reynslu í framleiðslu á kavíar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×