Innlent

Orkan seld á næstu misserum

Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir

Iðnaðarráðherra boðaði ekki álver á Bakka með orðum sínum í fréttum í vikunni, þótt hún segði stórfellda atvinnuuppbyggingu vísa á Norðausturlandi. Þetta áréttaði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra eftir fyrirspurn Halldóru Lóu Þorvaldsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, á Alþingi í gær.

„Ég sagði að verkefnisstjórnin, sem vinnur að því að koma af stað atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi, teldi að mál væru það langt komin að við þyrftum að fara að undirbúa samfélagið undir stórfellda atvinnuuppbyggingu,“ sagði Katrín.

„Töluverður munur er á stórfelldri atvinnuuppbyggingu og stóriðju á Bakka. Ég held að við þurfum öll að fara að lenda á jörðinni í þessu efni og hætta að tortryggja hvert annað.“

Katrín segir fyrir liggja að sex verkefni af fjölbreyttum toga hafi komist í A og B flokk verkefna hjá verkefnisstjórninni fyrir norðan og hafi yfirlýstan áhuga á orkukaupum.

„Þess vegna telur nefndin nú Landsvirkjun þurfa að taka að sér stjórn á orkusölunni. Álitaefni séu uppi þegar komi að orkufrekum verkefnum svo sem vegna álversins á Bakka. Það sé hins vegar samningsatriði milli Landsvirkjunar og þeirra sem að verkefnunum standa hvernig leyst verði úr því.

Um leið áréttaði Katrín að Landsvirkjun hefði eytt á annan tug milljarða í undirbúning orkuvinnslu fyrir norðan.

„Þessi orka verður seld til atvinnuuppbyggingar á næstu misserum.“ - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×