Viðskipti innlent

Fjárfestahópur hættir við að reyna að kaupa Sjóvá

Fjárfestahópurinn sem átti hæsta tilboðið í tryggingarfélagið Sjóvá hefur sagt sig frá söluferli Sjóvá. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hópnum en Morgunblaðið greinir frá málinu á forsíðu sinni í dag.

Það var Heiðar Már Guðjónsson sem var í forystu hópsins en málið hefur hingað til strandað á afstöðu Seðlabankans. Það eina sem vantaði á samning var undirskrift Más Guðmundssonar seðlabankastjóra að því er segir í Morgunblaðinu.

Í tilkynningunni segir að undanfarin misseri hefur hópur fjárfesta átt í samningaviðræðum við Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. og Íslandsbanka hf. um kaup á hlutum þeirra í Sjóvá Almennum tryggingum hf. Hópurinn átti hæsta tilboð í félagið í auglýstu söluferli á félaginu sem hófst 18. janúar sl. og Íslandsbanki hf. annaðist.

Síðan segir: „Hópurinn veitti seljendum frest til 22. október sl. til að staðfesta fyrir sitt leyti kaupsamning um fyrrgreinda hluti, ella teldi hópurinn að söluferlinu væri lokið án þess að kaup hefðu tekist. Nú um það bil mánuði síðar hefur enn ekki verið tekin afstaða af hálfu seljenda til fyrirliggjandi samnings. Hefur hópurinn því formlega tilkynnt seljendum um að þátttöku hans í ferlinu sé lokið.

Fjárfestahópurinn harmar þessa niðurstöðu mjög, eftir ómælda vinnu við að reyna að ljúka viðskiptum með farsælum hætti, en óskar félaginu og starfsmönnum þess hins besta í framtíðinni."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×