Skoðun

Ný stjórnarskrá, til hvers?

Þorvaldur Gylfason skrifar
Tilgangur sérhverrar stjórnarskrár er að vernda venjulegt fólk fyrir afglöpum og ofríki stjórnmálamanna. Þess vegna á fólkið sjálft að setja sér stjórnarskrá, ekki stjórnmálamenn. Og þess vegna á stjórnarskráin að vera í fyrstu persónu fleirtölu: það er þjóðin, sem talar. Þjóð, sem hefur orðið fyrir þungbærum skaða af völdum stjórnmálamanna og annarra, þarf nýja stjórnarskrá til að girða fyrir frekari afglöp og ofríki af því tagi, sem ollu skaðanum.



Hrunið land þarf að byrja með hreint borð.

Ég legg til, að ný stjórnarskrá lýðveldisins hefjist á þessum orðum:

„Við Íslendingar setjum okkur þessa stjórnarskrá til að tryggja almannahag, frelsi, lýðræði, mannréttindi, réttlæti og velferð og efla friðsæld, innviði og öryggi lýðveldisins okkur sjálfum til heilla og afkomendum okkar. Öllum Íslendingum ber að virða stjórnarskrána, æðstu lög landsins."

Meginefni stjórnarskrárinnar er útfærsla á þeim grundvallarhugsjónum, sem upphafsorðin lýsa. Við þurfum að

  • Treysta þrískiptingu framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds með því að treysta Alþingi og dómstólana gagnvart framkvæmdarvaldinu og draga úr veldi stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka.
  • Fækka þingmönnum og ráðherrum, svo að þjóðin vandi betur mannvalið á vettvangi stjórnmálanna.
  • Efla lýðræði með því að fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum og gera landið að einu kjördæmi.
  • Setja ákvæði um varnir gegn spillingu, skipun embættismanna, upplýsingaskyldu stjórnvalda, stjórnmálaflokka, starfsemi þeirra og fjárreiður til að girða fyrir frekari sjálftöku stjórnmálastéttarinnar í eiginhagsmunaskyni.
  • Tryggja ótvíræð yfirráð ríkisins, það er þjóðarinnar, yfir auðlindum sínum í samræmi við hina alþjóðlegu mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna.



Við þurfum lengri og rækilegri stjórnarskrá en þá, sem þjóðin setti sér á Þingvöllum 1944. Það er álitamál, hvort okkur dugir að endurbæta núverandi stjórnarskrá eða skrifa nýja stjórnarskrá frá grunni. Ég hallast af hagnýtum ástæðum að fyrri kostinum.

Mestu skiptir, að stjórnlagaþingið komi sér saman um nýja og betri stjórnarskrá og fái Alþingi til að bera hana óbreytta og athugasemdalaust undir þjóðaratkvæði, enda er Alþingi sjálft vanhæft til að fjalla um fækkun þingmanna og ýmis önnur atriði í nýrri stjórnarskrá.






Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×