Viðskipti innlent

Baugur og Birgir áttu skuldsettasta pítsafyrirtæki landsins

Valur Grettisson skrifar
Magasin du Nord. Birgir fékk lánið út á andlitið eitt.
Magasin du Nord. Birgir fékk lánið út á andlitið eitt.

Fjárfestirinn Birgir Þór Bieltvedt, sem átti og rak pítsafyrirtækið Dominos á Íslandi stýrir nú Dominos í Þýskalandi. DV greindi frá því í morgun að eignarhaldsfélagið Pizza-Pizza, sem á Dominos, skuldaði tæpa tvo milljarða eða 1800 milljónir.

Núverandi eigandi félagsins er útgerðamaðurinn Magnús Kristinsson en fram kom í frétt DV í morgun að hann hefði keypt fyrirtækið skuldsett.

„Ég þarf að skoða þetta áður en ég svara þessu," voru viðbrögð Magnúsar þegar Vísir hafði samband við hann í morgun vegna fréttarinnar en hann var þá ekki búinn að kynna sér umfjöllunina um málið. DV greindi frá því að fyrirtækið hefði verið tekið af Magnúsi enda er það tæknilega gjaldþrota.

Fyrri eigendur Dominos er Birgir Þór sem átti fyrirtækið einn þangað til um 2005. Þá seldi hann Baugi og Tryggva Jónssyni hlut í fyrirtækinu. Síðar keypti Magnús Kristinsson 20 prósent hlut sem Birgir Þór átti.

Birgir Þór Bieltvedt átti Dominos ásamt Baugi.

Birgir Þór varð landskunnugur árið 2004 þegar hann keypti hlut í Magasin du Nord. Hann réðst í þau viðskipti ásamt Straumi fjárfestingabanka, sem þá var meðal annars í eigu góðvinar hans, Björgólfs Thors Björgólfssonar, og svo Baugi.

Birgir sagði í viðtali við Berlingske Tidende þegar hann keypti hlut í Magasin du Nord að hann hefði fengið einn og hálfan milljarð að láni „út á andlit sitt" hjá Straumi. Þá kynnti hann tækifærið fyrir Jóni Ásgeir Jóhannessyni og Björgólfi.

Það var svo í apríl á þessu ári sem þýskir fjölmiðlar greindu frá því að Birgir stýrði Dominos í Þýskalandi.

Heildarverðmæti Dominos árið 2005 voru 1100 milljónir króna. Þá var fyrirtækið með 60 prósent markaðsstöðu hér á landi.

Samkvæmt DV námu rekstrartekjur Dominos rúmlega 1.600 milljónum í fyrra en tap félagsins nam tæpum 200 milljónum á árinu. Eigið féð er neikvætt um rúmar 1.100 milljónir króna og er eigið féð því neikvætt um tæplega 170 prósent.

Ekki náðist í Birgi vegna málsins.


Tengdar fréttir

Gríðarlega skuldsett pítsafyrirtæki

Pítsafyrirtækið Dominos skilur eftir sig nærri tveggja milljarða króna skuld samkvæmt ársreikningum fyrir árin 2008 og 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×