Innlent

Krúnukúgarinn á flótta

Ian Strachan, öðru nafni Paul Aðalsteinsson, sem komst í fréttirnar árið 2008 þegar hann var ákærður og dæmdur fyrir að kúga fé út úr meðlimi bresku konungsfjölskyldunnar, hefur flúið frá Skotlandi og er nú eftirlýstur. Skoskir miðlar segja að Strachan, sem er af íslenskum ættum, hafi eytt þúsundum punda í að breyta andliti sínu áður en hann lagði á flóttann en hann hefur verið á skilorði frá því í mars eftir að hafa setið í fangelsi í þrjátíu mánuði. Fjölmiðlar segja ennfremur að hann hafi nýtt sér tvöfaldan ríkisborgararétt sinn til þess að ferðast án þess að þurfa að sýna breska vegabréfið.

Strachan hefur verið í sambandi við fjölmiðla í Skotlandi og segist hann vera í landi sem hafi ekki framsalssamning við Bretland. Ástæðu þess að hann lagði á flótta segir hann vera ósanngjarnar kröfur yfirvalda, en hann þurfti að hitta skilorðsfulltrúa vikulega, mæta á námskeið í félagsmótun og þá var honum bannað að yfirgefa Bretland.

Þá fullyrðir hann að honum hafi verið hótað að verða sendur aftur í fangelsi ef hann myndi véfengja dóminn sem hann fékk á sínum tíma. „Ég mun ganga las uns ég verð sýknaður," segir Strachan en hann mun hafa fengið stjörnulögfræðinginn Giovanni di Stefano til þess að sækja um náðun fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×