Erlent

Elgir valda þúsundum umferðaróhappa í Svíþjóð

Svíar telja að fjöldi umferðaróhappa þar sem elgir koma við sögu muni fara yfir 6.000 í ár.

Í umfjöllun sænskra fjölmiðla er vitnað í sérstakt villidýraráð sem fylgist með þessum óhöppum og heldur um fjölda þeirra. Samkvæmt ráðinu má rekja hinn mikla fjölda óhappa til þess að elgstofninn er í miklum vexti.

Í ár eru þegar skráð 5815 óhöpp miðað við 5769 á sama tímabili í fyrra. Í langflestum tilvikum er um að ræða að keyrt sé á elgina á þjóðvegum og sveitavegum Svíþjóðar. Slíkt er ekki bara lífshættulegt fyrir elgi heldur einnig ökumann og farþega þar sem hver elgur vegur að meðaltali 500 til 700 kíló.

Fyrrgreint ráð telur að auka beri veiðar á elgum í Svíþjóð til að minnka stofninn. Svíar veiða nú tæplega 100.000 elgi á hverju ári en fyrir tæpum tuttugu árum var fjöldi veiddra dýra tæplega 175.000 talsins. Stofninn í heild telur um 300.000 dýr.

Ráðið leggur þar að auki til að girðingar meðfram vegum landsins verði styrktar til að koma í veg fyrir umferð elga um vegina og að verstu vegakaflarir, það er þar sem flestir elgir lenda fyrir ökutækjum verði merktir sérstaklega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×