Viðskipti innlent

Friðlýsa Jan Mayen en setja um leið milljarða í olíuleit

Friðlýsing Jan Mayen gæti þýtt að þjónusta við olíuleit verði öll frá Íslandi
Friðlýsing Jan Mayen gæti þýtt að þjónusta við olíuleit verði öll frá Íslandi Kort af Jan Mayen
Norsk stjórnvöld hafa ákveðið að friðlýsa Jan Mayen. Á sama tíma hafa þau ákveðið að verja 3,4 milljörðum íslenskra króna næstu tvö árin til að undirbúa olíuboranir á norðurslóðum, þar á meðal á hafsvæðinu umhverfis eyna. Friðlýsingin gæti leitt til þess að þjónusta við olíuleit verði umfangsmeiri hérlendis en annars hefði orðið.

Friðlýsingin þýðir að Jan Mayen verður verndað friðland sem og hafsvæðið umhverfis eyna innan tólf mílna landhelgi. Undanþegin vernd verða þó svæði í kringum veðurathugunarstöð og flugbraut. Þá kemur friðlýsingin ekki í veg fyrir fiskveiðar né olíuleit í efnahagslögsögu Jan Mayen utan tólf mílna.

Tilkynning um friðlýsingu Jan Mayen ber þess merki að vera friðþæging gagnvart andstæðingum frekari olíuleitar á norðurslóðum innan norsku ríkisstjórnarflokkanna því að á sama tíma var tilkynnt um að verulegum fjárhæðum yrði varið næstu tvö árin til að undirbúa olíuleit á hafsvæðum norðan heimskautsbaugs, og eru Jan Mayen og Barentshaf sérstaklega nefnd í norskum fjölmiðlum í því sambandi. Norska ríkisstjórnin hyggst þannig verja samtals 180 milljónum norskra króna á árunum 2011 og 2012 til rannsókna í því skyni að undirbúa olíuboranir í norðurhöfum.

Í friðlýsingu Jan Mayen felst að ekki verður leyft að byggja þar þjónustumiðstöðvar vegna fyrirhugaðrar olíuleitar. Olíuleitarfélög sem hyggjast freista gæfunnar á Jan Mayen-hryggnum munu því væntanlega ekki hafa annan kost betri en íslenskar hafnir. Þannig gæti friðlýsingin leitt til þess að íslenskar hafnir þurfi ekki aðeins að þjónusta olíuleit á íslenska hluta hryggjarins, sem Íslendingar hafa nefnt Drekasvæðið, heldur einnig að þjónusta leitina á norska hlutanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×