Innlent

Trúverðugleiki Alþingis í húfi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hluti þingflokks Vinstri grænna. Mynd/ Stefán.
Hluti þingflokks Vinstri grænna. Mynd/ Stefán.
Trúverðugleiki Alþingis er í húfi verði þingsályktunartillaga um ákærur gegn fyrrverandi ráðherrum ekki leidd til lykta á málefnalegan og lýðræðislegan hátt, án óþarfa tafa og undanbragða, segir í samþykkt frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar - Græns framboðs í dag.

Í samþykktinni minnir þingflokkurinn á að Alþingi samþykkti samhljóða lög um skipan rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefnd sem tæki við niðurstöðum hennar. Þverpólitíksk samstaða hafi hingað til verið um störf beggja nefndanna. Í samþykktinni þakkar þingflokkurinn þingmannanefndinni fyrir vel unnin störf og lýsir yfir ánægju með vinnubrögð hennar.

Þá segir í samþykktinni að Alþingi standi nú frammi fyrir þeirri staðreynd að sjö af níu nefndarmönnum leggi til að mál verði höfðað gegn fyrrverandi ráðherrum og verði nú að axla ábyrgð sína á málinu.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gagnrýndi í gær störf þingmannanefndarinnar. Gerði hún meðal annars athugasemd við að þeir ráðherrar sem nefndin leggur til að verði ákærðir hafi ekki fengið nægjanleg tækifæri til að koma andmælum á framfæri.




Tengdar fréttir

Jóhanna til New York í dag

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra heldur til New York borgar í dag til þess að taka þátt í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forsætisráðherra er óráðið hvenær Jóhanna mun snúa aftur. Það verði þó eins fljótt og auðið er.

Vonar að ræða ráðherra hafi ekki áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, er ósammála ýmsu sem kom fram í ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Alþingi í gær. Þetta sagði hann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Hann sagðist einkum vera ósammála því sem kom fram í ræðu forsætisráðherra um gagnrýni á Atlanefndina svokölluðu. Forsætisráðherra væri þó heimilt að tjá eigin skoðanir á málinu.

„Alvarlegt umhugsunarefni fyrir mig“

„Þetta er mjög alvarlegt umhugsunarefni fyrir mig. Ég ætla að sofa á þessu og telja upp að tuttugu,“ segir Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, vegna ummæla Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Alþingi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×