Innlent

Grunsamlegur gluggagægir tekinn í Grafarvogi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Grunsamlegur gluggagægir var á ferð í Grafarvogi upp úr klukkan sjö í morgun. Lögreglan fékk tilkynningu um manninn upp úr klukkan hálfsjö og handtók hann. Á honum fannst varningur sem lögreglan telur að sé þýfi, en þó er ekki talið að hann hafi náð að brjótast inn í hús á svæðinu.

Lögreglan segir að töluverður erill hafi verið í dag og komu 110 verkefni á borð lögreglu. Þar beri helst ber að nefna að tvö umferðaróhöpp urðu en fyrra slysið varð laust eftir klukkan sjö í morgun á Reykjanesbraut en þar sofnaði ökumaðurinn undir stýri með þeim afleiðingum að bifreiðin fór út af veginum. Enginn slasaðist. Síðara slysið varð á tíunda tímanum á Þingvallavegi. Þar valt bifreið og ökumaður hennar slasaðist lítilsháttar. Lögreglan telur að ökumaður hafi ekki ekið miðað við aðstæður en mikil hálka var á vettvangi.

Tveir hafa verið handteknir vegna gruns um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna í dag, báðir aðilar hafa komið við sögu lögreglu vegna samskonar mála. Sömu aðilar reyndust sviptir ökuréttindum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×