Innlent

Gjörgæsludeildin græðir á endurunnum farsímum

Jón Gnarr, borgarstjóri, ákvað að láta aðstandendaherbergi á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut njóta góðs af söfnunarfénu.
Jón Gnarr, borgarstjóri, ákvað að láta aðstandendaherbergi á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut njóta góðs af söfnunarfénu.
Jón Gnarr, borgarstjóri, ýtti úr vör endurvinnsluverkefni Reykjavíkurborgar og fyrirtækisins Grænnar Framtíðar í dag með því að skila inn til endurvinnslu smáraftækjum sem ekki eru lengur í notkun.

Starfsmenn og borgarbúar geta komið með smáraftæki heiman frá sér til endurvinnslu í gegnum sérstakt kerfi sem tekið hefur verið í notkun í samstarfi við Græna Framtíð. Tekið er á móti smáraftækjum til endurvinnslu í upplýsingaþjónustu Ráðhúss Reykjavíkur eða í Upplýsingaveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12 - 14. Um er að ræða fartölvur, farsíma og önnur smáraftæki sem eru orðin úrelt eða ekki lengur nothæf.

Nýtt raftæki með litlum tilkostnaði

Fyrirtækið Græn framtíð mun annast flutning búnaðarins til endurvinnslufyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum. Endurvinnslan snýst um að gera við hluti eða nýta nothæfa hluti til þess að gera annan hlut virkan. Með endurvinnslu smáraftækis er hægt að fá heilt raftæki með litlum tilkostnaði og ekki þörf á að búa til nýtt. Til dæmis er hægt að skipta um skjái eða setja nýja rafhlöðu í tæki svo að þau virki eins og áður.

Skapar verðmæti

Endurunnu tækin eru svo seld að nýju, meðal annars til þróunarríkja fyrir brot af upphaflegu verði tækjanna. Einnig er hægt að nýta virka íhluti úr þeim fyrir framleiðslu og viðgerðir á öðrum raftækjum. Þá er spilliefnum úr tækjum eytt með löglegum hætti. Með þessu móti er hægt að skapa verðmæti og síður gengið á afurðir jarðarinnar.

Gjörgæslan nýtur góðs af

Með endurvinnsluáætluninni vill Reykjavíkurborg efla umhverfisvitund og stuðla að almennri endurvinnslu og endurnotkun á smáraftækjum. Ávinningur af sölu búnaðarins rennur til góðgerðarmála og ákvað Jón Gnarr, borgarstjóri, að láta aðstandendaherbergi á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut njóta góðs af söfnunarfénu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×