Viðskipti erlent

Dýrast að borga í stöðumæli í Kaupmannahöfn

Kaupmannahöfn er orðin sú borg í heiminum þar sem dýrast er að borga bílastæðagjöld.

Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Colliers International hefur gert um hvað það kosti að borga í bílastæðagjöld í ýmsum borgum heimsins en miðað var við sólarhringslanga notkun á bílastæðum.

Á dýrasta svæðinu í miðborg Kaupmannahafnar, svokölluðu rauðu svæði, kostar það tæplega 8.300 krónur að geyma bílinn sinn. Í öðru sæti er Abu Dhabi en þar kostar bílastæðið 6.500 krónur á sólarhring og í þriðja sæti koma svo Osló og Tókýó þar sem stæðin kosta 6.400 krónur.

Til samanburðar má nefna að miðsvæðis á Manhattan í New York kostar stæðið 4.7öö krónur.

Miðað við listann sem Colliers birtir er mjög hagstætt að láta bíl standa við stöðumæli, eða í bílskýli, í Reykjavík en gjaldið hér í borg er 1.230 krónur fyrir sólarhringinn.

Ódýrasta bílastæðagjaldið er í borginni Chenni á Indlandi en þar kostar sólarhringurinn aðeins 115 krónur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×