Fótbolti

Diego Forlan með tvö mörk í 3-0 sigri Úrúgvæ á heimamönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Forlan fagnar fyrra marki sínu í kvöld.
Diego Forlan fagnar fyrra marki sínu í kvöld. Mynd/AP
Úrúgvæ vann 3-0 sigur á heimamönnum í Suður-Afríku í fyrsta leiknum í annarri umferð riðlakeppninnar á HM í Suður-Afríku í kvöld en tapið þýðir að gestgjafarnir eru komnir í mjög slæm mál í riðlinum. Diego Forlan skoraði tvö mörk fyrir Úrúgvæ í leiknum, eitt í hvorum hálfleik.

Fyrra markið skoraði Forlan með glæsilegu langskoti á 24. mínútu leiksins. Hann fékk þá boltann á miðjum vallarhelmingi Suður-Afríku, lék upp að teig og þrumaði boltann í markið.

Síðara mark Forlan kom úr vítaspyrnu á 80. mínútu. Markvörðurinn Itumeleng Khune braut þá á Luis Suarez og hlaut að launum rautt spjald og víti dæmt á sig. Forlan skoraði af öryggi úr spyrnunni og er því orðinn markahæsti maðurinn á HM.

Það var síðan Álvaro Pereira sem innsiglaði sigurinn í uppbótartíma þegar hann skoraði eftir sendingu Luis Suarez og undirbúning Forlan sem var langbesti maður vallarsins í kvöld.

Suður-Afríkumenn eiga nú ekki mikla möguleika á að komast upp úr riðlinum og það lítur allt út fyrir það að þeir verði fyrstu gestgjafarnir í sögu HM sem komast ekki upp úr riðlakeppninni.

Úrúgvæar eru aftur á móti komnir á topp riðilsins með fjögur stig og góða markatölu (3-0) en á morgun mætast Frakkland og Mexíkó en þau hafa bæði eitt stig síðan úr fyrsta leik sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×