Íslenski boltinn

Andri: Erum að fá mörk í bakið sem skrifast á einbeitingarleysi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Fréttablaðið/Valli
Andri Marteinsson þjálfari Hauka var vonsvikinn eftir að lið hans tapaði niður forystunni í 4-2 sigri Breiðabliks á Haukum. Haukar komust yfir rétt fyrir hálfleik en Breiðablik setti þrjú mörk í seinni hálfleik sem tryggði þeim sigurinn.

„Þetta er okkar saga, við erum að fá mörk í bakið sem skrifast algjörlega á einbeitingarleysi. Við ætluðum að halda áfram okkar leik í hálfleik en svo kemur augnabliks einbeitingarleysi sem er afar dýrkeypt í þessari deild. Maður getur sloppið með þetta í fyrstu deildinni en menn þurfa að átta sig á því að það er ekki hægt í efstu deild."

Þórhallur Dan Jóhannsson skoraði klaufalegt sjálfsmark, en hann skallaði sláin inn, óverjandi fyrir Daða Lárusson í markinu hjá Haukum.

„Sjálfsmörk eru náttúrulega alltaf klaufaleg, það varð misskilningur á milli hans og Daða og hann fer á undan og nær ekki fullum skalla í boltann."

Batamerki voru á leik Haukaliðsins sem hægt er að taka í næsta leik, þeir börðust vel á miðjunni og náðu vel að loka á hraða kantmenn Breiðabliks.

„Stefnan er náttúrulega í hverjum leik að ná þremur stigum, við förum ekki í leiki til að halda stiginu heldur sækja þrjú stig. Jafntefli hafa þó gefið okkur eitthvað en þau gefa samt lítið, við þurfum því að spíta í lófana og taka það góða úr þessum leik og byggja ofan á því," sagði Andri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×