Fótbolti

Þóra sænskur meistari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þóra B. Helgadóttir varð um helgina sænskur meistari í knattspyrnu er LdB FC Malmö tryggði sér titilinn.

Malmö gerði jafntefli, 1-1, við Kopparberg/Göteborg sem er í öðru sæti deildarinnar. Tíu stigum munar á liðunum en þrjár umferðir eru eftir.

Að loknum nítján umferðum er Malmö enn taplaust. Liðið hefur unnið sautján leiki og gert tvö jafntefli.

Þóra stóð að venju í marki liðsins en hún hefur aðeins misst af einum leik í sumar. Dóra Stefánsdóttir hefur hins vegar misst af öllu tímabilinu vegna meiðsla.

Fimm leikir fóru fram í deildinni í gær. Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði mark Kristianstad sem gerði 1-1 jafntefli við Djurgården.

Margrét Lára, Erla Steina Arnardóttir og Guðný Björk Óðinsdóttir voru allar í byrjunarliði Kristianstad í gær. Guðbjörg Gunnarsdóttir stóð í marki Kristianstad.

Þá tapaði Örebro fyrir Linköping á útivelli, 3-2. Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir lagði upp fyrra mark Örebro í leiknum. Bæði hún og Edda Garðarsdóttir voru í byrjunarliðinu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×