Innlent

Bretar hafa enn ekki orðið við beiðni Íslendinga

MYND/Anton

Breska lögreglan hefur enn ekki orðið við beiðni sérstaks saksóknara um að Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, verði handtekinn og framseldur til Íslands. Dómsmálaráðherra segir að framsalssamningur milli Íslands og Bretlands sé í fullu gildi.

Sigurður hefur ekki svarað kalli sérstaks saksóknara vegna rannsóknar á meintum lögbrotum hans. Sigurður sem búsettur er í London er eftirlýstur á vef Interpol fyrir fjársvik og hefur sérstakur saksóknari óskað eftir því hann verði framseldur til Íslands.

Samkvæmt upplýsingum frá bresku lögreglunni er ekki búið að handtaka Sigurð en handtökubeiðni sértsaks saksóknara er komin með málsnúmer hjá Scotland Yard. Ferlið gæti, eftir því sem fréttastofa kemst næst, tekið nokkra daga til viðbótar.

Íslendingar eigi enn eftir að fullgilda Evrópusamning um handtöku og framsal grunaðra og dæmdra manna. Dómsmálaráðherra segir að sú staðreynd eigi ekki að hafa áhrif á framsalsbeiðnir. „Almennt talað erum við aðilar að evrópskum framsalssamningi, Bretar líka, en ekki samningi um evrópsku handtökuskipunina. Þannig að það er framsalssamningur í gildi á milli þessara landa," segir Ragna Árnadóttir.

Neiti bretar hins vegar að verða við beiðni sérsaks saksóknara þurfi þeir eftir sem áður veita íslendingum réttaraðstoð sem felur það í sér að Sigurður yrði yfirheyrður í Bretlandi vegna rannsóknar sérstaks saksóknara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×