Íslenski boltinn

Gummi Ben: Markið frá þeim lá í loftinu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Guðmundur Benediktsson.
Guðmundur Benediktsson.

Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfyssinga, var ekki ánægður með hvernig sínir menn komu inn í seinni hálfleikinn í kvöld. Lið hans tapaði 1-2 fyrir Fram.

„Við getum tekið ýmislegt úr þessum leik," sagði Guðmundur. „Mér fannst við geysibeittir og öflugir í fyrri hálfleiknum og fengum fjölmörg færi gegn sterku Framliði. Við nýttum þau ekki og var síðan refsað fyrir það."

„Mark frá þeim lá í loftinu frá því að flautað var til seinni hálfleiks. Það kom mér gríðarlega á óvart þar sem við vissum að við þyrftum að leggja enn meira á okkur í seinni hálfleiknum. Þau skilaboð virðast þó ekki hafa komist til skila," sagði Guðmundur.

Margir leikmanna Selfyssinga mótmæltu sigurmarki Framara þar sem þeir töldu Hjálmar Þórarinsson hafa verið rangstæðan. „Ég sá þetta ekki vel en það voru grunsamlega margir sem báðu um rangstöðu. Aðstoðardómarinn tjáði mér að hann hafi verið réttstæður og ég verð bara að trúa því."

Næsti leikur Selfyssinga er gegn Val á Vodafone-vellinum. „Það verður enn einn erfiði leikurinn. Þetta eru allt hörkuleikir og við verðum að mæta í þann leik í góðum gír ef við ætlum að fá eitthvað út úr honum," sagði Guðmundur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×