Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga fjárfestingarbanka, er einn þeirra sem hefur verið yfirheyrður í morgun í Glitnismálinu, samkvæmt heimildum fréttastofu. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvort Þorvaldur Lúðvík hefur verið í skýrslutökum vegna gruns um refsiverða háttsemi eða hvort hann hefur stöðu vitnis. Í morgun var gerð húsleit hjá höfuðstöðvum Saga fjárfestingarbanka á Akureyri.
Málið er tengt viðskiptum Glitnis við eignarhaldsfélagið Stím árið 2007, en Saga átti 6% hlut í Stím og var félagið jafnframt skráð til heimilis þar. Þá keypti Stím hlutabréf í Glitni og FL fyrir 25 milljarða króna með engu nema veði í bréfunum sjálfum. Sérstakur saksóknari hefur staðið í umfangsmiklum húsleitum og yfirheyrslum vegna málsins í dag.
Ólafur Þ. Hauksson sérstakur saksóknari, hefur ekkert viljað tjá sig um nöfn þeirra sem eru í skýrslutökum eða annað sem tengist málinu. Hann segist ætla að senda frá sér fréttatilkynningu innan skamms en mun ekki tjá sig opinberlega þangað til.

