Innlent

Óvíst með fjármagn og orku fyrir kísilinn

Helguvík Horft yfir framkvæmdasvæði við álver Norðuráls í Helguvík. Kísilmálmverksmiðjan á að rísa á svæði nær höfninni, efst til vinstri á myndinni. Hún á að skapa 300 störf á framkvæmdatíma en 90 munu starfa í verksmiðjunni þegar hún er komin í full afköst, og afleidd störf verða níutíu.Fréttablaðið/GVA
Helguvík Horft yfir framkvæmdasvæði við álver Norðuráls í Helguvík. Kísilmálmverksmiðjan á að rísa á svæði nær höfninni, efst til vinstri á myndinni. Hún á að skapa 300 störf á framkvæmdatíma en 90 munu starfa í verksmiðjunni þegar hún er komin í full afköst, og afleidd störf verða níutíu.Fréttablaðið/GVA
Fjármögnun er ekki að fullu lokið og orkusölusamningar liggja ekki fyrir vegna kísil­málmverksmiðju í Helguvík. Áformað er að hefja framkvæmdir við byggingu verksmiðjunnar í sumar.

„Það er stutt í mark,“ segir Magnús Garðarsson, forstjóri Tomahawk Development, sem stýrir verkefninu. Áætlanir miðist nú við að verksmiðjan taki til starfa 1. júní 2012.

Eftir er að tryggja um 20 prósent af nauðsynlegri fjármögnun en viðræður eru í gangi við evrópska og bandaríska banka, segir Magnús. „Það hefur ríkt mikil óvissa um Ísland í Evrópu.“ Margir bankar hafi sagt nei en sumir kannski. „Við erum á réttri leið og ég er viss um að þessi 20 prósent finnast,“ segir hann. Bandarísk kísilmálmbræðsla mun eiga meirihluta í verksmiðjunni á móti Magnúsi og öðrum aðstandendum Tomahawk. Hann vill ekki ræða um samstarfsaðilann. Það fyrirtæki sé bundið af reglum á Nasdaq-markaðnum bandaríska um birtingu upplýsinga. Magnús vildi ekkert láta hafa eftir sér um orkuöflun og orkusölusamninga til verksmiðjunnar.

Í skýrslu sem Capacent hefur unnið fyrir Reykjanesbæ og kynnt var bæjarráði í gærmorgun segir að framkvæmdir við kísil­málmverksmiðjuna muni hefjast nú í apríl en verksmiðjan taki til starfa í byrjun 2012. Í skýrslunni virðist gert ráð fyrir því að orkusölusamningur liggi fyrir um fyrri áfanga en að samningur „um annan ofn komi inn um mitt ár eða í síðasta lagi 2012“.

Kísilmálmverksmiðjan þarf 60 MW af orku til þess að knýja tvo ofna. Fyrir lá samningur við HS Orku um nauðsynleg 30 MW til að knýja fyrri áfanga af tveimur. Gert var ráð fyrir að raforkan yrði afhent frá 1. nóvember 2011. Að sögn Júlíusar Jónssonar, forstjóra HS Orku, er þessi samningur fallinn úr gildi. „Þeir lentu í vandræðum með sinn samstarfsaðila í Bandaríkjunum. Núna eru þeir komnir með annan samstarfsaðila en samningarnir voru runnir út.“

Júlíus segir að nýjar viðræður séu ekki á byrjunarreit heldur byggi á grunni eldri samnings. Enginn samningur sé hins vegar í gildi. Þeirri orku sem eldri samningur snerist um hefur nú verið ráðstafað til til væntanlegs álvers Norðuráls í Helguvík, að sögn Júlíusar.

peturg@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×