Innlent

Tveir frétta­menn RÚV söðla um

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Valur og Benedikt hafa starfað saman í tæp tvö ár en nú skilja leiðir.
Valur og Benedikt hafa starfað saman í tæp tvö ár en nú skilja leiðir.

Benedikt Sigurðsson og Valur Grettisson, fréttamenn á Ríkisútvarpinu, hafa ákveðið að segja skilið við fréttastofu RÚV. Annar er hættur en hinn að vinna sínar síðustu vaktir. Þeir hófu störf á svipuðum tíma í ársbyrjun 2023.

Valur gekk á dögunum til liðs við Heimildina eftir að hafa starfað í Efstaleiti í tæplega tvö ár. Þar áður var hann um árabil ritstjóri The Reykjavík Grapevine. 

Benedikt Sigurðsson kveður nú RÚV í annað skipti en hann starfaði í Efstaleiti upp úr aldamótum áður en hann færði sig yfir til Kaupþings í aðdraganda hrunsins. Þá var hann aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um tíma, bæði þegar Sigmundur var formaður Framsóknarflokksins og svo forsætisráðherra.

Benedikt vildi í samtali við Eirík Jónsson ekki tjá sig um ástæður brotthvarfsins eða hvað væri fram undan. Þetta væri orðið gott í bili. Benedikt var á vettvangi við Skógá í Rangárþingi ytra í kvöldfréttum RÚV þar sem hann var að fjalla um ástæður rafmagnsleysis í Mýrdalshreppi.

RÚV hefur auglýst eftir fréttamanni til starfa á fréttastofunni.

Fleiri vistaskipti eiga sér stað í Efstaleiti um þessar mundir. Arnar Björnsson fréttamaður hætti störfum sökum aldurs en hann vann sína síðustu vakt 31. október.  

Þá hefur Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps, ákveðið að láta af störfum um áramót eins og Vísir greindi frá í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×