Innlent

Ramos var settur í einangrun

Þannig lítur það út, eggvopnið sem Ramos hótaði fangaverði lífláti með.
Þannig lítur það út, eggvopnið sem Ramos hótaði fangaverði lífláti með.

Brasilíski lýtalæknirinn Hosmany Ramos, sem hótaði fangaverði með eggvopni þegar hann reyndi að flýja frá fangavörðum í fyrradag, var beittur agaviðurlögum vegna málsins og settur í einangrun á Litla-Hrauni. Hann þarf að sæta einangrun í tíu daga og verður síðan að öllum líkindum vistaður á öryggisgangi á Litla-Hrauni, samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun.

Verið var að flytja Ramos fyrir dómara þegar hann reyndi flóttann, eins og Fréttablaðið greindi frá í gær. Hann náði að losa af sér handjárnin og stökk út úr fangaflutningabílnum. Lögreglubíll á næstu grösum náði að sveigja í veg fyrir hann og lögreglumanninum í bílnum og tveimur fangaflutningamönnum tókst svo að handsama hann.

Þá hafði hann hótað öðrum fangaverðinum lífláti með því að ota að honum heimatilbúnu eggvopni, sem hann hafði leynt á sér.

Ramos var í héraðsdómi úrskurðaður í gæsluvarðhald til 19. janúar. Hann hefur kært úrskurð dómsmálaráðuneytis þess efnis að hann verði framseldur til brasilískra yfirvalda vegna glæpaverka í heimalandinu, til héraðsdóms.- jss




Tengdar fréttir

Hótaði fangaverði lífláti í stroktilraun

Brasilíski gæsluvarðhaldsfanginn Hosmany Ramos hótaði fangaverði lífláti um hádegisbilið í gær þegar verið var að færa hann fyrir dómara, til framlengingar á gæsluvarðhaldi hans, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Áður hafði honum tekist að útbúa á laun oddhvasst stunguvopn, sem hann hótaði fangaflutningamanninum með.

Flýði til þess að mótmæla ítrekuðu gæsluvarðhaldi

Brasilíski lýtalæknirinn Hosmany Ramos þarf að sæta agaviðurlögum vegna flóttatilraunar auk þess sem hann hótaði fangaverði með heimatilbúnu eggvopni. Að sögn lögmanns Ramosar þá sætir hann einangrun í tíu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×