Fyrstu farþegaflugvélarnar í Norður-Evrópu hófu sig til flugs í morgun eftir nær algert fimm daga flugbann vegna Eldgossins í Eyjafjallajökli.
Þrjár vélar hófu sig til lofts á Schiphol flugvelli í Hollandi í gærkvöldi og klukkan sex var umferð leyfð um marga flugvelli í álfunni. Í þýskalandi er stefnt að opnun á hádegi. Þetta var ákveðið á fundi samgönguráðherra ríkja Evrópubandalagsins í gær.
Því er vonast til að flugumferð komist í samt lag á stórum hluta svæðisins í dag og að umferðin verði orðin eðlileg að mestu á fimmtudag.
Blikur virðast þó enn á lofti því breska flugumferðarstjórnin hefur varað við versnandi aðstæðum í háloftunum vegna öskufallsins. Áður hafði verið gefið grænt ljós á að hefja flug að nýju í dag yfir Skotlandi, Norður-Írlandi, og Norðurhluta Englands en skömmu síðar var sý bjartsýnisspá endurmetin. British Airways segjast nú stefna á að hefja flug frá London klukkan sex í dag, en það fer þó eftir því hvernig aðstæður þróast.
Á fundi ráðherranna í gær var ákveðið að skipta evrópsku lofthelginni í þrjú svæði þar sem á einu er algert flugbann, á öðru gilda strangar öryggisreglur og á því þriðja verða allar ferðir leyfðar.
Í Noregi var í morgun ákveðið að loka lofthelginni yfir suðvesturhluta landsins og er flugvöllurinn í Bergen meðal annars lokaður af þessum sökum. Þá ákváðu Pólverjar að loka allri lofthelgi sinni í morgun vegna ótta um að nýtt öskuský sé á leiðinni.