Innlent

Helgi í Góu ósáttur við bæjarstjórn Akureyrar vegna KFC

Mynd úr safni

„Það er óeðlilegt að á þeim 10 árum sem liðin eru síðan KFC sótti fyrst um byggingarleyfi fyrir veitingastað á Akureyri skuli leyfið enn ekki fást, sé undanskilin ein lóð sem fyrirtækinu var boðin í jaðri bæjarfélagsins þar sem enginn býr og fáir vinna," segir Helgi Vilhjálmsson, betur þekktur sem Helgi í Góu, í opnu bréfi sem hann hefur sent bæjarstjórn Akureyrar. Helgi er einn eigenda KFC.

Tilefni bréfs Helga er að skipulagsnefnd Akureyrarbæjar hefur ákveðið að falla frá auglýstri deiliskipulagstillögu fyrir Drottningarbrautarreit, en þar var fyrirhugað að veitingastaðurinn KFC myndi hefja starfsemi á Akureyri.

Ennfremur segir í bréfinu:

„KFC ehf. hefur í um 10 ár reynt að fá hentuga lóð á Akureyri fyrir rekstur en ávallt verið hafnað. Akureyringar hafa samt sem áður kallað mjög sterkt eftir því að KFC hefji rekstur í bæjarfélaginu og eru nú m.a. til þrjár facebook-síður með samtals 4.000 stuðningsyfirlýsingum sem lýsa þessum vilja bæjarbúa. Engin þessara síðna var stofnuð að frumkvæði KFC ehf.

Það skýtur því mjög skökku við að bæjarfélagið skuli ítrekað hafna tillögum um staðsetningu veitingastaðar KFC. Sérstaklega nú á lóð sem KFC ehf. sótti um byggingarleyfi á að frumkvæði bæjarfélagsins.

KFC ehf. rekur nú 7 veitingastaði í 6 bæjarfélögum undir merkjum KFC og tvo staði undir merkjum Taco Bell. Á öllum stöðum hefur fyrirtækið gott orð á sér fyrir reksturinn og nánasta umhverfi."

Tengd frétt:

Ekkert KFC á Akureyri í bráð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×