Innlent

Segir bætur hugsanlega orðnar of háar

Karen Kjartansdóttir skrifar

Atvinnurekendur greina æ oftar frá því að fólk leggi fram útreikninga sem sýna að að það hafi það betra á bótum en í vinnu. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann segir hugsanlegt að bætur séu orðnar of háar.

Eins og við höfum undanfarið bent á í fréttum Stöðvar 2 er hvatinn til að velja láglaunastarf umfram atvinnuleysisbætur, framfærslustyrki eða örorkubætur oft enginn.

Útreikningar sýna að eftir að hlunnindi þeirra hópa sem ekki stunda vinnu eru reiknaðir inn í myndina ber fólk í láglaunastörfum oft minnst úr býtum.

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að þetta geti verið varhugaverð þróun.

"Við hjá Samtökum atvinnulífsins vorum núna í vikunni á fundum víða um land og þá kom þessi umræða mjög oft upp. Fyrirtæki hafa orðið vör við það að fólk kemur með útreikningana og segir að það hafi það betra atvinnulaust á bótum en í vinnu," segir Vilhjálmur.

En sýnir þetta ekki að lægstu launin eru orðin of lág?

"Fólki þykja lægstu launin alltaf of lág ég held að það komi aldrei til með að breytast. En ef við skoðum hvernig þetta hefur þróast síðustu fimmtán ár sjáum við að kaupmáttur launanna, það er að segja lágmarkslaunanna, hefur hækkað um 80 prósent. Kaupmáttur þessara lægstu launa hefur því hækkað langt umfram kaupmátt almennt. Þar hefur kaupmáttaraukningin orðið um það bil 30 prósent," segir hann.

Vilhjálmur segir að kanna verði hvert stefnt er í þessum málum.

En telur hann að bætur og styrkir séu of háir?

"Það er alveg hugsanlegt. Það þarf að velta því verulega fyrir sér hvort það sé skynsamlegt að það sé betra fyrir fólk að vera atvinnulaust heldur en í vinnu," svarar Vilhjálmur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×