Fótbolti

Enska HM-umsóknin fékk aðeins tvö atkvæði af 22 mögulegum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Englendingar sátu eftir með sárt ennið.
Englendingar sátu eftir með sárt ennið. Mynd/Nordic Photos/Getty
Englendingar gerðu sér miklar vonir um að fá að halda Heimsmeistarakeppnina í fótbolta árið 2018 og voru margir bjartsýnir fyrir kosninguna í framkvæmdastjórn FIFA í dag. Rússar hrepptu hinsvegar hnossið og munu halda HM í fótbolta eftir átta ár.

Það var áfall fyrir ensku umsóknina að tapa fyrir Rússum en nýjustu tölur um gang mála í kosningunni eru kannski enn meira áfall fyrir Englendinga sem fengu háðulega útreið í kosningunni.

England fékk nefnilega aðeins tvo atkvæði í fyrstu umferð og var því fyrsta framboðið til þess að falla úr leik. Holland/Belgía fékk þá 4 atkvæði, Spánn/Portúgal fékk 7 atkvæði og Rússland fékk 9 atkvæði.

Rússar fengu síðan meirihluta í annarri umferð, 13 atkvæði af 22 og því strax ljóst þá að þeir fengju að halda keppnina. Spánn/Portúgal fékk 7 atkvæði í 2. umferð og Holland/Belgía aðeins tvö.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×