Íslenski boltinn

Jón Guðni: Við höfum verið að gera þetta sjálfir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Guðni Fjóluson í baráttunni við Jordao Diogo.
Jón Guðni Fjóluson í baráttunni við Jordao Diogo. Mynd/Vilhelm
Framarinn Jón Guðni Fjóluson horfði upp á 2-0 forustu Framliðsins breytast í 2-3 tap á lokamínútunum á móti KR á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Það er fátt sem maður getur sagt eftir svona endakafla. Maður er bara drullusvekktur og pirraður en við verðum að rífa okkur upp úr þessu," sagði Framarinn Jón Guðni Fjóluson sem átti góðan leik á miðjunni og kom Fram í 2-0 á 56. mínútu.

„Við höfum verið að gera þetta sjálfir en erum ekki vanir að fá þetta á okkur. Ég veit ekki hvað gerist því mér fannst við vera komnir með tökin á leiknum eftir að við komust í 2-0. Það hefur vantað hjá okkur að klára þriðja markið og slátra leikjunum," segir Jón Guðni sem setur sökina á Framliðið.

„Þetta var okkar klúður og við getum sjálfum okkur um kennt. Við hefðum samt getað komist á toppinn og það er leiðinlegt að nýta það ekki," sagði Jón Guðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×