Íslenski boltinn

Kristján: Trufluðu okkur með því að setja þrjá í framlínuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Hauksson, fyrirliði Fram.
Kristján Hauksson, fyrirliði Fram. Mynd/Daníel
Kristján Hauksson, fyrirliði Fram, var traustur í Framvörninni í kvöld en gat ekki komið í veg fyrir það frekar en félagar hans í Framliðinu að KR skoraði þrjú mörk á síðustu fjórtán mínútum leiksins og tryggði sér dramatískan 3-2 sigur.

„Það gefur auga leið að það var leiðinlegt að tapa þessu niður. Við vorum með þetta í hendi okkar," sagði Kristján en hvað gerðist?

„Þeir setja þrjá í framlínuna og það virðist trufla okkur eitthvað. Við hefðum getað leyst það betur. Kannski héldum við að þetta væri komið en annars veit ég það ekki," sagði Kristján.

„Þetta leit vel út hjá okkur og við vorum algjörlega með þetta. Þeir sköpuðu varla færi fram að þessu fyrsta marki sínu. Þeir tóku áhættuna á því að henda mönnum fram og það tókst hjá þeim í þetta skiptið," sagði Kristján.

„Það er alltaf leiðinlegt að tapa en við mætum bara klárir í næsta leik og ætlum að gera betur þá og hreinsa upp skítinn," sagði Kristján að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×